143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalega umræðu. Ég er ekki vanur því að taka upp hanskann fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, en hv. þingmaður nefndi sérstaklega orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi hæstv. ráðherra, við atkvæðaskýringu á þeim tíma, 16. júlí 2009, þegar rætt var um þetta mál.

Þar segir hún í lokin, með leyfi forseta:

„Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Mig langar að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort hann styðji þá ekki að þjóðin ákveði sjálf hvort halda eigi þessum viðræðum áfram eða ekki.