143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnmálahreyfingar sem fylgja þessu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að lýsa skeyta hvorki um skömm né heiður. Enginn hefur lýst því betur en fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra sem hafði aðra skoðun á þessu en hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann lýsti framferði formanns Sjálfstæðisflokksins með þeim hætti að það væru stærstu sviki í lýðveldissögunni.

Það eru stór orð. Það var ekki ég sem felldi þau. Það var fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Af hverju? Vegna þess að honum hafði verið lofað að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna. Honum var lofað því fyrir og eftir kosningar. Á þeim grundvelli veitti fjöldi sjálfstæðismanna formanni Sjálfstæðisflokksins umboð sitt í kosningum. Það er ekki hægt að kalla háttsemi hans annað en pólitísk umboðssvik.