143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekkert að verja fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir standa bara fyrir sín orð og meina þau en það hefur margoft komið upp að kosningar hafa breytt stöðunni, t.d. í kosningunum 2009. Þá var annar stjórnarflokkurinn búinn að lofa því að tala ekki við AGS, ganga ekki í Evrópusambandið o.s.frv. Það fyrsta sem hann gerði var að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ganga til samstarfs við AGS o.s.frv.

Þær forsendur höfðu breyst. Auðvitað breyta kosningar og samsteypustjórnir því sem menn lofa og segja fyrir kosningar. Það er alltaf þannig.

Ég hef ekki breytt neinu, ég lofaði engu um slíkt og ég mun greiða atkvæði gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið, alveg sama hvað hv. þingmaður eða aðrir ná fram góðum samningum. Hv. þingmaður náði reyndar ekki fram neinum samningum.