143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hyggst ræða hér nokkuð um þann hluta þessarar skýrslu sem snýr að efnahagsmálum í Evrópusambandinu, þó sérstaklega að evrunni, og hvernig ég tel að efnahagsþróunin verði og eins hvað muni í raun fylgja í framhaldinu hvað varðar evrusvæðið og þróun þess.

Fyrst ber að líta á það að upptaka evrunnar er stórmerk tilraun til þess að auka samruna og samstarf Evrópuríkjanna. Hún er stórmerk fyrir margra hluta sakir. Við eigum öll mikið undir því að sú tilraun takist sem best, hvort sem ríki hafa tekið upp evruna eða ekki. Það eru sameiginlegir hagsmunir þar fyrir hendi.

Vandinn er sá að veigamikil rök hníga að því að takmarkað sé hversu stórt myntsvæðið getur orðið, yfir hversu mörg lönd það getur náð. Það sem takmarkar það er að nægjanleg einsleitni sé á milli hagkerfanna þannig að þau geti búið við sameiginlega peningamálastefnu.

Það sem meira er, það þarf að ríkja nægjanleg stjórnmálaeining sem tryggi um leið samleitni í ríkisfjármálastefnunni. Ég tel algjörlega einsýnt að fram undan sé sú þróun sem þeir sem börðust fyrir upptöku evrunnar sáu í raun fyrir, menn sem þekktu einmitt hörmungar styrjalda og átaka. Þau ríki sem tekið hafa upp evruna munu jafnt og þétt auka samvinnu sína, einkum og sér í lagi með samþættingu ríkisfjármálanna, útgáfu sameiginlegra skuldabréfa, til að undirbyggja hina sameiginlegu peningamálastjórn.

Það má augljóslega deila um hvort núverandi evrusvæði sé of stórt. Þær brotalamir sem komið hafa fram benda til þess, en það er alls ekki útilokað að það takist á næstu árum og áratugum að auka samþættinguna, draga úr muninum á milli norður- og suðursvæðisins í álfunni þannig að evran í núverandi mynd með núverandi fjölda ríkja muni ganga upp. Það er rétt að hafa það í huga að land eins og Ítalía gat haft sína mynt þrátt fyrir að gríðarlegur munur væri milli Norður- og Suður-Ítalíu vegna þess að um var að ræða eina pólitíska einingu sem stóð að baki þeirri mynt.

Hvers vegna skiptir það máli? Það skiptir verulega miklu máli fyrir okkur Íslendinga sem erum núna, með aðildarumsókn að ESB, að gera okkur grein fyrir því að þessi þróun er óumflýjanleg og mun halda áfram og hún er æskileg. Hún er æskileg fyrir evruríkin. Á sama tíma munu þau ríki sem ekki hafa tekið upp evruna en eru innan vébanda ESB að öllum líkindum ekki fylgja þessari þróun eftir. Er nægilegt að horfa hér til umræðunnar í Bretlandi og reyndar víðar.

Það mun þá benda til þess að þar muni þróast Evrópusamband þar sem evruríkin eru annars vegar með sitt þétta samstarf og hins vegar þau ríki ESB sem standa utan evrunnar. Þegar því er haldið fram í umræðu hér að það sé svo nauðsynlegt að fyrir liggi samningur til að við getum tekið upplýsta ákvörðun er rétt að hafa í huga að það verður ekki upplýst ákvörðun í raun á meðan þróunin stendur enn yfir og ekki er vitað hvar hún endar, þ.e. við höfum ekki á hreinu inn í hvaða ESB við værum að ganga og reyndar er nokkuð langur vegur þar frá.

Þessi þróun skiptir líka máli þegar kemur að samþættingu lýðræðisins annars vegar og hins vegar meðferð á peningastjórnarvaldinu og ríkisfjármálavaldinu. Sá vandi er uppi í Evrópu að mjög erfitt er að halda því fram að til sé einhver samevrópsk hugmynd um það hvað það er að vera Evrópumaður. Þótt álfan eigi sína sameiginlegu sögu er hún margbrotin, en það er í sjálfu sér ein af forsendum þess að hægt sé að hafa kerfi þar sem kosið er um sameiginleg málefni þannig að mark sé á takandi. Evrópumenn eru fyrst Bretar eða Englendingar, fyrst Frakkar eða Ítalir, Þjóðverjar, Spánverjar, áður en þeir kynna sig sem Evrópumenn. Það er reyndar ólíkt því sem við þekkjum þegar við hittum Bandaríkjamenn sem svara þeirri spurningu hvaðan þeir séu með því að byrja á að segjast vera frá Bandaríkjunum og svo gefa þeir upp ríkið. Af hverju skiptir það máli? Það skiptir máli vegna þess að þróunin innan ESB á evrusvæðum er í átt til meiri valdasamruna. Á sama tíma erum við með þann vanda hvernig lýðræðið tengist við þessar sömu valdastofnanir, hvernig jafn ólíkir kjósendur og Grikkir annars vegar og Þjóðverjar hins vegar kjósa um hin sameiginlegu mál með sína ólíku sögu og ólíku lífssýn.

Reyndar er vaxandi tilhneiging til þjóðernishyggju víða í álfunni, sem er vandamál, sérstaklega fyrir evruríkin. Á þeim tíma sem við þurfum á því að halda fyrir hönd þeirra ríkja að þau auki samruna sinn og samvinnu hugsa kjósendurnir í sömu ríkjum, í það minnsta mörgum þeirra, meira á þjóðernislegum nótum.

Það er því gjá þar á milli og af því er rétt að hafa nokkrar áhyggjur.

Ef við tökum þetta saman held ég að segja megi að það sé það mikil óvissa um þróun þessa ríkjasambands, að það sé rétt fyrir okkur Íslendinga að gera hér stans. Við skulum sjá hver framvindan verður á næstu árum, þá geta menn tekið ákvörðun síðar meir ef það myndast pólitískur vilji til þess í sölum Alþingis að sækja um aðild að því sambandi.

Ég held að ekki sé hægt að taka neina upplýsta ákvörðun á þessum tímapunkti vegna þessa.

Hvað varðar hagvöxt og möguleika ríkja til að efla hag sinn sést það í þeirri tölfræði, sem skýrslan sem hér er verið að ræða sýnir, að hagvöxtur hefur verið með ágætum á Íslandi. Hagvaxtarhorfur eru líka ágætar saman borið við Evrópu. Þó eru þetta hagvaxtarmælingar og -spár að gefnum þeim forsendum sem við búum við, þ.e. að við erum með krónuna í höftum, sem veldur okkur auðvitað efnahagslegum skaða og gerir okkur ekki kleift að nýta til fulls þá sóknarmöguleika sem við þó eigum.

Ég held að hægt sé að færa fyrir því rök að með því samstarfi sem við eigum nú þegar við Evrópuríkin, sem er djúpt og mikið, og aðgengi okkar að hinum sameiginlega markaði, séum við Íslendingar í góðum færum með því að búa hér við hagvöxt sem er að minnsta kosti ekki minni en sá sem spáð er að verði bæði á evrusvæðinu og í Evrópusambandinu í heild. Það er það sem skiptir svo gríðarlega miklu máli. Lífskjörin grundvallast þar á framleiðniaukningu og hagvexti.

Það er reyndar annað vandamál innan ESB, lítil framleiðniaukning. Álfan hefur dregist aftur úr til dæmis Bandaríkjunum og við vitum hvað er að gerast í Asíu. Þess vegna skiptir það okkur máli þegar við erum að meta hagsmuni Íslands bæði í bráð og lengd að horfa til þessara þátta. EES-samningurinn tryggir okkur aðgengi að hinum innra markaði, gríðarlega mikilvægt fyrir okkur. Á sama tíma höfum við verið að vinna að samningum við önnur ríki, m.a. hraðvaxtarríki Asíu sem búa við allt aðra samsetningu fólksfjöldans eða íbúanna hvað varðar aldurssamsetningu, allt öðruvísi hagvaxtartölur, sem gera okkur Íslendingum kleift eða í það minnsta opna möguleika fyrir okkur að auka hér hagvöxt vel umfram það sem gerist í Evrópu.

Eins skipta samskipti okkar við Bandaríkin miklu máli fyrir okkur. Það er ekki rétt að draga upp þá mynd að þeir sem ekki vilja ganga í ESB séu einhvers konar einangrunarsinnar sem telji hag Íslands best borgið með því að hér hugi hver að sínu og menn byggi á einhvers konar sjálfsþurftarbúskap. Það er langur vegur frá. Þvert á móti á Ísland alla möguleika til þess að gera bæði tvíhliða samninga við önnur ríki og á vettvangi EES- og EFTA-samstarfsins og síðan hinn mikilvægi aðgangur okkar að innri markaðnum.

Við erum í öllum færum með að nýta þetta vel, enda sjáum við það á hagvaxtarspám og hagvaxtartölum að það er ástæða fyrir okkur Íslendinga til að vera ágætlega bjartsýn hvað þetta varðar.

Mér finnst þetta blasa við þegar ég hef lesið skýrslu Hagfræðistofnunar og þó einkum og sér í lagi þann hluta sem snýr að efnahagskaflanum, annars vegar varðandi evruþróunina og þá þróun og þær ályktanir sem ég dreg af því sem þar er sagt, sem er reyndar í samræmi við það sem rætt er um um alla álfuna og allir þeir sem velta þessu fyrir sér sjá og heyra hvert stefnir, og hins vegar varðandi hagvaxtarþróunina.

Saman virt tel ég þessar upplýsingar auðvitað skipta máli fyrir okkur, þær eru til þess fallnar að dýpka og skerpa hér á umræðunni til þess að við komumst að ágætri og málefnalegri niðurstöðu.