143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í desember árið 2008 skrifaði hv. þingmaður grein, ásamt núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, um að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ættum að leggja þann samning undir atkvæði þjóðarinnar og síðan minnir mig að í kosningabaráttunni á eftir hafi menn fjallað um ábyrga leið til upptöku evru, það hafi verið yfirskriftin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi á þeim tíma talið að í framhaldinu mundi Evrópusambandið aldrei breytast neitt. Það yrði aldrei nein þróun, aldrei neinar breytingar. Þannig er nú bara lífið og það er þannig á Íslandi líka að óvissa ríkir um framtíðina. Það er vegna þess að samfélag manna tekur sífellt breytingum.

Spurningin er þess vegna: Ætlum við að taka þátt í þróun til breytinga innan Evrópusambandsins eða ætlum við alltaf að vera fyrir utan og fylgjast með úr fjarlægð og svo kannski stökkva inn einhvern tíma ef og þegar menn halda að Evrópusambandið sé orðið fastmótað og muni þaðan í frá aldrei breytast? Ég skil ekki þessa röksemdafærslu, virðulegi forseti, ég bara botna ekkert í henni.

Hv. þingmaður talar líka hér um að EES veiti okkur mikilvægan aðgang að innri markaðnum. Það er alveg rétt. En þá spyr ég hæstv. ráðherra líka hvort hann hafi engar áhyggjur af því að það sem hér er verið að gera geti haft veruleg áhrif á aðild okkar að EES. Ég spyr hæstv. ráðherra líka hvers vegna gengið sé lengra í þingsályktunartillögu sem hann stendur að og samþykkir út úr ríkisstjórn og þingflokki, hvers vegna gengið sé lengra í henni og talað um að slíta viðræðum en gert er í stjórnarsáttmálanum þar sem talað er um að gera hlé á aðildarviðræðum. Það er tvennt ólíkt að draga umsókn til baka eða gera hlé.

Ég spyr: Hvað er það í skýrslu Hagfræðistofnunar sem veldur því að menn ákveða (Forseti hringir.) bara umsvifalaust að segja: Við drögum þessa umsókn til baka, göngum lengra en samþykkt Sjálfstæðisflokksins gerði ráð fyrir og göngum lengra en gert er í stjórnarsáttmálanum.