143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef eitthvað er varið í stjórnmálamenn kennir þá stundum til. Þeir leggja sig fram og ég er einn af þeim sem eiga erfitt með að skilja tilfinningar frá stjórnmálum. Ég sinni þeim af kappi og ástríðu. Þannig hefur mér líka fundist hv. þingmaður sinna sínum stjórnmálum.

Ég velti fyrir mér hvernig honum líði við þessar aðstæður. Þá er ég ekki að vísa til fyrri afstöðu hans til inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru eins og 2008 í frægri grein með núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins eða auglýsingunni sem þeir birtu fimm dögum fyrir kosningar 2009. Nei, frú forseti, ég er að hugsa um yfirlýsingarnar sem formaður Sjálfstæðisflokksins gaf eftir landsfund sjálfstæðismanna þar sem fundurinn felldi að gera það sem hæstv. ráðherra tekur núna þátt í, að slíta viðræðunum.

Ég er að hugsa um þegar Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, horfði í augun á fjöldamörgum sjálfstæðismönnum og lofaði þeim þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Ég er að hugsa um þegar fjármálaráðherra og leiðtogi lífs þessa hæstv. ráðherra sagði þegar hann hratt úr vör kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins 23. mars á Hótel Loftleiðum að hann teldi að það ætti að gerast á fyrri hluta kjörtímabilsins. Og ég er að hugsa um það þegar formaður Sjálfstæðisflokksins horfði í augun á þjóðinni eftir kosningar og sagði við sjónvarpsvélina að hann væri enn sömu skoðunar.

Með þessu fékk hann og sótti umboð fjölda frjálslyndra sjálfstæðismanna sem í staðinn studdu hann og hæstv. ráðherra. Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Er ekki hægt að kalla þetta pólitísk umboðssvik af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. menntamálaráðherra?