143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður spurði annan hv. þingmann sömu spurningar og fékk þar svar. Annaðhvort hefur það illa skilist eða fyrirspyrjandinn ekki sætt sig við niðurstöðu þess.

Ég er þeirrar skoðunar að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmaður og hæstv. fjármálaráðherra, sé hér að taka rétta ákvörðun. Hún er augljóslega ekkert auðveld en ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið með þessu. Það er það sem gildir fyrst og síðast. Í fjögur ár var reynt að gera samninga við ESB um þetta mál. Það strandaði meðal annars á því að ríkisstjórnin var klofin í málinu og eru til vitnisburðir ráðherra þeirrar ríkisstjórnar um allan þann gassagang.

Ég verð að leyfa mér að segja að öll sú framganga var farin að grafa nokkuð undan stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Þegar fyrir liggur að báðir þeir flokkar sem þá mynduðu ríkisstjórn hafa þá stefnu sem þeir hafa og er ljós og þegar líka liggur fyrir forsaga þessa máls alls er þetta hin ábyrga afstaða sem tekin er.

Vilji hv. fyrirspyrjandi áfram berjast fyrir aðild Íslands að ESB, sem ég hvet hann til að gera því að ég veit að hann hefur þessa hugsjón og hann á ekkert að víkja frá henni, á hann að berjast fyrir henni þannig að í þingkosningum vinni hann og einhverjir aðrir flokkar þannig meiri hluta að þeir geti lagt af stað með þetta ferli með eðlilegum hætti en ekki stofnað utanríkishagsmunum Íslendinga í þá hættu sem gert var.

Þess vegna segi ég, virðulegur forseti, að þetta er alveg augljóslega ekki auðveld ákvörðun en þegar litið er til hagsmuna Íslands, bæði í bráð og lengd, tel ég þetta hafa verið rétt ákvörðun. Annars hefði hún ekki verið tekin.