143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:10]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í gjaldmiðilsmálin. Það er alveg ljóst að mjög margir kalla eftir því að við tökum upp evru, þá í samstarfi við Evrópusambandið, með inngöngu í Evrópusambandið. Það liggur fyrir að með upptöku evru munum við draga úr viðskiptakostnaði hér og lækka vexti, vegna þess að það er minni áhætta að lána í evrum, og geta losað landið úr gjaldeyrishöftum.

Við vitum vissulega ekki hvernig framtíðin lítur út í Evrópu eða hver framtíð þessa gjaldmiðils en við vitum kannski enn minna um hver framtíð Íslands með krónuna er.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er það stefna hans að krónan verði framtíðargjaldmiðill Íslands? Ég vil ekki fá það svar að það liggi ljóst fyrir að við verðum að hafa krónuna næstu ár. Það liggur ljóst fyrir. Ég er að tala um inn í framtíðina, (Gripið fram í.) 10, 20, 30 ár. Stjórnmál eiga að snúast um framtíðina.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist í lagi að flokkurinn hans gefi kosningaloforð þar sem segir skýrt að þetta sé mál sem eigi að leggja í dóm þjóðarinnar, þjóðaratkvæðagreiðslu er lofað og síðan er það kosningaloforð svikið. Ég kaus ekki Sjálfstæðisflokkinn og flokkurinn verður auðvitað að eiga þetta að mestu við sína kjósendur, en alla stjórnmálamenn setur niður þegar einhver úr hópnum hagar sér á þennan hátt. Við erum stétt sem má ekki við því. Við erum eiginlega rúin trausti og það eru svona vinnubrögð sem eru ástæðan fyrir því.