143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta segir mér, kannski einföldun á þessu öllu, að það er ekki aðalmálið hvort við göngum í Evrópusambandið. Það skiptir öllu máli hvort sú ríkisstjórn sem hér er hverju sinni sé félagslega þenkjandi og vilji byggja upp öfluga byggð, hafa öfluga byggð í landinu alls staðar. Það var það sem síðasta ríkisstjórn sýndi fram á með verkum sínum. Þó að fjárhagurinn væri þröngur fór hún þá leið að vinna með fólki úti á landsbyggðinni, í sveitarfélögum og í landshlutasamtökum, með þessari sóknaráætlun 20/20, og lagði fé í rannsóknarsjóði og nýsköpun og það sem því fylgir til þess að koma fjármagni í hendur sveitarstjórnarmanna og fólks úti um allt land svo að það gæti sjálft verið gerendur í sínum málum, haft áhrif á hvernig fjármagnið yrði nýtt og byggt upp samfélag sitt og styrkt stoðir þess út frá þeim áherslum sem voru heima í héraði.

Ég held að þetta sé miklu betri nálgun en að frá fjarlægu Evrópusambandi langt í burtu og í miðstýringu sé verið að dæla fjármagni út og suður. Það verður að vera meiri nálægð svo að fjármagnið nýtist. Við getum alveg gert þetta sjálf eins og við sýndum virkilega fram á á síðasta kjörtímabili. Við hefðum auðvitað átt að halda því áfram en núverandi ríkisstjórn telur þetta ekki vera neitt forgangsverkefni á sinni könnu. Það hefur hún sýnt í verki í síðustu fjárlögum því miður.

Þess vegna segi ég: Við getum gert þetta sjálf ef vilji er fyrir hendi hjá þeirri ríkisstjórn sem er við völd.