143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að fá fram allt það sem snýr að sjávarútvegi þegar við ræðum þessi mál og hvaða ávinningur væri og hvaða gallar væru ef við mundum ganga inn í Evrópusambandið. Og hvort við hefðum forræði yfir fiskimiðunum og hvað væri í boði varðandi tolla og annað því um líkt, því að Evrópa er einn okkar stærsti markaður í þessum efnum og skiptir gífurlega miklu máli fyrir sjávarútveginn. En þetta þarf auðvitað að vega allt saman.

Ég er alveg sammála því að þegar fólk tekur upplýsta ákvörðun um þessi mál og samningur yrði gerður þyrfti þetta allt að liggja fyrir og við hér þyrftum líka að vita hvað héngi á spýtunni í þessum efnum. En mér finnst líka margt annað vanta í skýrsluna því að ekki er allt tekið inn í samning sem snýr að Evrópusambandinu.

Ég segi fyrir mína parta að þó að við næðum einhverju sem við mundum kalla ásættanlegan samning fyrir þjóðina efnahagslega, þá er margt annað sem verður aldrei komið fyrir í samningi varðandi lýðræðismálin og ýmsa aðra þróun innan Evrópusambandsins, ójafnvægi milli ríkra og fátækra þjóða og hvernig ýmsar jaðarþjóðir standa með allt öðrum hætti því að evran er ekki söm alls staðar í Evrópu. Ég meina, Ítalía, Spánn, Grikkland, Portúgal, efnahagsumhverfi þeirra þjóða er allt annað en stóru sterku ríkjanna eins og Frakklands, Þýskalands og Bretlands.

Ég vil líka horfa til Evrópu burt séð frá einhverjum viðskiptasamningi sem við gætum sagt að við værum að ná hagstæðum samningum um ýmsa efnahagsþætti, horfa til þess hvernig ástandið er í Evrópu (Forseti hringir.) sem snýr að þessum málum, félagslegu réttlæti og öðru því um líku.