143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að þetta hefði þurft að vera greint miklu betur í skýrslunni og allt sem snýr að þessum málum.

Svo vil ég taka upp að við þurfum líka að vita hverju við fórnum á móti. Erum við að fórna yfirráðum okkar yfir fiskimiðum? Erum við að fara út í erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi á Íslandi eða ekki? Hverju erum við að fórna? Við þurfum að vega það og meta.

Þegar við horfum á Evrópu eins og hún er í dag með allt að 15–25% atvinnuleysi þar sem ástandið er verst og hvernig vinnumarkaðurinn er hérna heima á Íslandi, þá erum við að horfa á tvo mjög ólíka þætti hvað það varðar. Ég met mikils að vera laus við atvinnuleysi (Forseti hringir.) og hef miklar áhyggjur af því hvernig atvinnuleysisdraugurinn er að grípa um sig í Evrópu.