143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér til að ræða þetta mál og ég held að 34 þingmenn hafi samþykkt að við yrðum hér í kvöld. Ég veit svo sem ekki hvað margir eru í húsi en það er ekki þriðjungur þeirra í augsýn að minnsta kosti. Mér finnst það sjálfsögð kurteisi af fólki sem samþykkir það að vinnufélagar þeirra séu hér að óþörfu vegna þess að það er nægur tími fram eftir kvöldi að það láti sjá sig. Ég get ekki látið hjá líða að skapvonskast svolítið út af þessu, virðulegi forseti, og biðst afsökunar á því.

Hér ræðum við skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og þróun mála innan sambandsins sem gerð var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að beiðni ráðherra. Honum finnst samt óþarfi, eftir því sem fram hefur komið og við höfum öll séð, að við ræðum skýrsluna mikið, við séum annaðhvort með eða á móti og þurfum ekkert að ræða hana. Ég vil gera athugasemd við þessi ummæli hæstv. ráðherra í fjölmiðlum um helgina, en ég vona að honum hafi bara hlaupið kapp í kinn og sagt þetta í hita umræðnanna í þessum útvarpsþætti því að þetta var náttúrlega ekki alveg kurteist, fannst mér.

Ég ætla hins vegar að ræða skýrsluna og það sem fram í henni hefur komið. Það sem við erum að leita að þar er náttúrlega hvort raunhæft sé að semja við Evrópusambandið um aðild að því. Ég tel að skýrslan sýni mjög vel að það er hægt. Og þó að það standi einhvers staðar — það var nú mjög skrýtin setning — að það sé ekki um raunverulegar samningaviðræður að ræða vegna þess að það er samið um reglur Evrópusambandsins, þá er það auðvitað þannig að Evrópusambandið setur sér reglur og ríkin eiga helst öll og í sem mestum mæli að taka upp þær reglur. Það er einmitt þess vegna, og þetta hefur verið sagt svo oft hér í ræðustól, virðulegi forseti, ég biðst afsökunar á því að endurtaka það, sem samningaviðræður fara fram. Annars tækjum við bara samninginn eða eitthvað sem eitthvert annað ríki hefði samið um og skrifuðum þar undir.

Það er eins með þessa samninga eins og t.d. samning um það ef maður ætlar að kaupa hús eða íbúð. Maður segir: Ég vil gjarnan kaupa þessa íbúð, og svo er spurningin hvort maður nær samkomulagi við seljandann um kaupin. Það er svona um alla samninga sem gerðir eru, þeir liggja ekki fyrir, þess vegna eru samningaviðræður. Og það er akkúrat það sem við höfum staðið í við Evrópusambandið.

Það er ekki samkomulag um margt í þessu máli. Það er þó samkomulag um það, og ég held að flestir hafi verið sammála um það allt frá upphafi, að erfiðustu kaflarnir væru landbúnaður og sjávarútvegur. Og hér hefur verið spurt: Hvers vegna var þá ekki farið og samið um þá fyrst? Hv. þingmenn frá Vinstri grænum hafa lagt á það áherslu að þeir hafi talið að það ætti að gera. Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að það sé mjög óraunsæ afstaða, ef ég má taka þannig til orða. Það er alltaf þannig í öllum samningaviðræðum að samið er um það erfiðasta síðast. Þannig er bara lífið, þannig ganga samningar fyrir sig. Þess vegna er ekki neitt óeðlilegt við það að landbúnaður og sjávarútvegur hafi verið með síðustu köflunum.

Hins vegar er mjög merkilegt finnst mér, og það hafði reyndar komið fram áður, við höfðum séð það í einhverju áliti sem kom frá framkvæmdastjórninni eða samningahópi Evrópusambandsins einhvern tíma á síðasta kjörtímabili og maður var hissa á því hvað álit þeirra sem kom fram um landbúnaðinn var jákvætt. Ég segi að ég varð svolítið hissa þegar ég sá það en það er staðfest í skýrslunni. Á bls. 34 stendur, með leyfi forseta:

„Af viðræðum við embættismenn í Evrópusambandinu verður ekki annað ráðið en að þeir hafi ekki séð fyrir óleysanleg vandamál og þrátt fyrir að ekki hefði verið hægt að semja um undanþágu frá niðurfellingu tollverndar hefði mátt ræða hvernig mætti koma til móts við innlenda framleiðendur til að bæta þeim upp tap af afnámi verndartolla.“

Þetta stendur á bls. 34. Mér sýnist því að í þessari skýrslu sé sagt: Já, það er hægt að semja um landbúnaðinn.

Þá komum við að sjávarútveginum. Auðvitað vissum við það öll, virðulegi forseti, og meira að segja ég hef þann fyrirvara á aðildarviðræðum við Evrópusambandið að ég mundi aldrei samþykkja aðildarsamning sem við gætum ekki lifað við vegna sjávarútvegsins. Sjávarútvegur er að miklu leyti undirstaða efnahagslífs hér á landi og við verðum að fá að halda því að hér sé rekinn sjávarútvegur sem er í bullandi gangi og skilar miklum verðmætum í þjóðarbúið. En það er mjög ólíkt sjávarútvegi í ríkjum Evrópusambandsins.

Í skýrslunni er rætt um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins ber mark sitt af þeim vandamálum sem sjávarútvegur í aðildarlöndunum hefur átt við að glíma. Þau vandamál eru nokkuð annars eðlis en þau sem við þekkjum hér á landi. Helstu viðfangsefnin í sjávarútvegi Evrópusambandslandanna hafa snúist um ofveiði, offjárfestingar í skipum og slæma afkomu í greininni.“

Ekkert af þessu á við hér á landi. Við erum með kvótakerfi sem kemur í veg fyrir ofveiði. Það eru einhverjir áratugir síðan okkur tókst að minnka skipaflotann þannig að við erum ekki með of stóran skipaflota, og það er sko ekki slæm afkoma í greininni, það er allt í bullandi uppgangi þar og auðvitað ætlum við að halda því. Þá þurfum við að muna, þegar við erum að semja við Evrópusambandið, af hverju þetta samband varð til.

Þessi samvinna varð til upp úr 1950 og undirritaður var samningur um Efnahagsbandalagið, sem þá hét svo, árið 1957. Af hverju? Það voru tvær ástæður. Í fyrsta lagi að tryggja frið í álfunni, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á og hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi reyndar líka eða féllst á í andsvari við hv. þm. Guðmund Steingrímsson. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hafði spurt ráðherra hvort hann héldi að ekkert væri betra út af þessu mikla samstarfi í Evrópu. Þá sagði hæstv. utanríkisráðherra eitthvað á þá leið að ef þessi Evrópusamvinna væri ekki væri líklega meiri ófriður í álfunni. Líklega meiri ófriður í álfunni, er það bara eins og fimmaurakúlur í poka? Mér finnst það skipta gífurlega miklu máli og það má kaupa það svolítið dýru verði að halda frið í álfunni, tel ég.

Annað: Hvernig ætluðu þessi ríki að gera þetta á sínum tíma og hefur ætlunarverkið tekist? Það var með því að bindast náið efnahagslegum böndum. Það tókst og það tókst svo vel að Bretar, sem ekki vildu vera með þegar samningurinn um Efnahagsbandalagið var undirritaður 1957, ásamt fleiri þjóðum stofnuðu EFTA árið 1960 vildu engu að síður fljótt komast þar inn. De Gaulle beitti þá tvisvar sinnum neitunarvaldi og þeir komust ekki inn fyrr en 1973. Bretar höfðu verið í EFTA og þeir héldu að þeir væru áfram heimsveldi og gætu það. Nei, þá urðu efnahagsframfarirnar svo miklar í ríkjunum sem höfðu gengið í Efnahagsbandalagið og skrifað undir þann samning, það voru bara sex ríki, að Bretar vildu ólmir komast inn.

Tökum annað dæmi. Þegar innleiða átti innri markaðinn sem komst í gagnið 1. janúar 1990 varð efnahagslegur uppgangur í Evrópu svo mikill út af væntingunum um að nú yrði þetta loksins einn markaður að EFTA-ríkin, sem mörg hver voru þá hlutlaus og ekki kom til greina að þau gætu gengið í bandalagið vegna þess t.d. að Berlínarmúrinn var enn þá uppi og ég veit ekki hvað, sögðu: Nú þurfum við að ná einhverjum samningum. Það byrjaði í janúar 1989, þá hófust viðræður um að ná samningi við Evrópubandalagið fyrir EFTA-ríkin. Af hverju? Jú, út af hinum efnahagslega framgangi í bandalagsríkjunum og EFTA-löndin vildu vera með. Síðan féll múrinn og allt þetta, heimurinn og sérstaklega Evrópa breyttist og fleiri lönd gátu gengið inn í sambandið.

Þess vegna er svo fáránlegt, finnst mér, að einhverjum detti í hug að Evrópuríkjunum detti í hug að fara í samningaviðræður við land eins og Ísland, sem á allt sitt eða mjög mikið undir sjávarútvegi, með það fyrir augum að ganga að sjávarútveginum dauðum eða hirða allt af þeim. Það kemur ekki til greina. Menn segja: Það hafa aldrei verið varanlegar undanþágur í sjávarútvegi. Nei, auðvitað ekki, vegna þess að ekkert land sem hefur sótt um er eins háð sjávarútvegi og við. Það er t.d. ein „statístikk“ sem ég hef alltaf svolítið gaman af í sambandi við það og hún er sú að í Evrópusambandinu veiðast 13 kíló á íbúa á ári af fiski. Á Íslandi 13 kíló á dag. Þetta sýnir að þetta er ekkert sambærilegt. Dettur einhverjum í hug að 28 Evrópusambandsríki segi já við því þegar land eins og Ísland æskir þess að fara í aðildarviðræður, til þess að gera Ísland gjaldþrota? Mér finnst þetta svo fáránlegt.

Þar fyrir utan kemur alveg skýrt fram í þessari skýrslu að menn ná varanlegum undanþágum. Hæstv. fjármálaráðherra gerir lítið úr því og segir: Undanþágan um fasteignir í Danmörku var bara út af því að það var verið að gera Maastricht-samninginn. Af hverju náðu Danir því þá inn? Þetta var löggjöf sem hafði verið í gildi í mörg, mörg ár, ég held allt frá því að Danir gengu inn 1973. Þá setja þeir þetta inn í samninginn vegna þess að ef eitthvað er í prótókoll eins og Maastricht-samningnum, ef eitthvað er í samningum verður því ekki breytt nema með samþykki allra. Og aðildarsamningur er ígildi samnings, aðildarsamningur er prótókoll við aðalsamninginn. Þess vegna, ef eitthvað er skrifað inn í aðildarsamning, verður því aldrei breytt nema að allir samþykki, öll löndin og þar með landið sem sótti um aðild.

Ég er tilbúin að ræða og skilja það og virða það við fólk að það vilji ekki ganga í Evrópusambandið. En ekki gera það á þeim forsendum að ekki sé hægt að semja og ná góðum samningi fyrir okkur. Það er erfitt, en ef við þorum ekki að klífa fjallið komumst við náttúrlega aldrei á toppinn. Ég segi við þá sem segjast frekar vilja vera í EES: Er það svona eftirsóknarvert að taka yfir meira en helming af allri löggjöf Evrópusambandsins og vera aldrei á fundunum þegar gengið er frá þeirri löggjöf, heldur taka hana upp (Forseti hringir.) eins og lítil fleyta í togi?