143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu, hún var svolítið fræðandi.

Það eru tveir kaflar sem virðast stjórna því, ef maður skilur umræðuna, hvort þessum samningi verður kastað út eða hvort hugsanlega væri hægt að samþykkja hann, og það eru landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin. Það er auðvitað búið að loka köflum, opna aðra o.s.frv.

Við að lesa um landbúnaðarmálin virðist sem áætlun hafi verið afhent Evrópusambandinu í júlí 2012 og Evrópusambandið hafi samþykkt aðgerðaáætlunina fyrir sitt leyti og boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram samningsafstöðu sína. En svo er talað um deilur innan lands um það. Ég var að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti frætt okkur um nákvæmlega hvaða sjónarmið eru þar að baki.