143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hljóti að hafa misskilið eitthvað, en kaupsamningur er bindandi, er það ekki? (Gripið fram í: Kauptilboð.) Kauptilboð. Það er einmitt það sem ég er að segja, maður gerir kauptilboð, maður getur dregið það til baka en þá er maður líka hættur við að kaupa þessa íbúð. Það er það sem ég er að segja. Þess vegna eigum við ekki að draga umsóknina til baka því að þá lokum við dyrunum. Ég tel eðlismun á því að spyrja áður en maður fer af stað þegar maður opnar dyrnar: Má ég opna þessar dyr? Má ég kanna hvort við náum samningi? Þá er ég ekki að tala um að kíkja í pokann eins og er sagt að við höfum verið að gera vegna þess að ég hef einlæga sannfæringu fyrir því að hægt sé að ná miklu meira eða viðunandi samningi. Það er ekki gott orð, „viðunandi“, en góðum samningi. (Forseti hringir.) Ég hef trú á því. Og það er eðlismunur á að opna dyr eða loka þeim.