143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í fjölmiðlum í gær að efnislegri umræðu um skýrsluna væri lokið. Hann sýndi okkur hv. þingmönnum sem erum í fyrstu ræðu okkar þá lítilsvirðingu að segja og gefa út að við hefðum ekki neitt nýtt til málanna að leggja, efnislegri umræðu væri lokið og komið væri að því að taka ákvörðun. Síðan kemur hæstv. utanríkisráðherra hingað inn og grípur tækifærið til að setja okkur hv. þingmenn enn neðar með því að segja fyrir fram að ræður okkar séu tilbrigði við málþóf. Ég á eftir að halda fyrstu ræðu mína. Ég mun sennilega gera það rétt fyrir miðnætti vegna þess að hv. stjórnarþingmenn samþykktu að halda kvöldfund, þótt þeir láti ekki svo lítið að sitja í salnum. Hæstv. ráðherra kemur svo inn og segir að líklega sé ekkert að marka það sem ég er að segja af því að þetta sé tilbrigði við málþóf.

Hæstv. forseti. Þetta er til skammar.