143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram skýr krafa frá hv. þm. Kristjáni L. Möller um að hér verði tveir ráðherrar við umræðuna þegar hann leggur af stað í ræðu sína. Mig langar að beina því til hæstv. forseta hvort ekki sé eðlilegt að við gerum hlé á fundi þannig að það megi verða við þeirri ósk og fá svör við því hvort hæstv. fjármálaráðherra komi hingað til að hlýða á umræðuna svo að svör fáist við þeim erindum sem þar eru lögð fram. Ég held að mikilvægt sé að menn þurfi ekki að vera að endurtaka sig. Það er náttúrlega orðið svolítið pínlegt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur varla verið ínáanlegur af fréttamiðlum og það hefði maður afsakað ef viðkomandi væri upptekinn við að sinna þinginu og þeim umræðum sem eiga sér stað hér. En ég held að það sé óásættanlegt fyrir hæstv. forseta að fá ekki svör um það hvort viðkomandi ráðherra komi hingað í umræðu.