143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við deilum að hluta til skoðunum, heyrðist mér á ræðu hv. þingmanns, varðandi að vilja komast að einhverri niðurstöðu, þ.e. að sjá samning á borðinu til að taka afstöðu til og gefa okkur ekki fyrir fram að þetta sé hið eina rétta í stöðunni. Mig langar til að velta upp spurningum með honum af því að, eins og ég sagði í ræðu minni, við deilum ekkert um að við erum að tala um töluvert framsal á innlendu valdi til alþjóðlegra stofnana En deilir hv. þingmaður þeirri skoðun með mér að það sé meira álitamál hvort ávinningur af aðild geti vegið upp eða réttlætt slíkt valdaframsal?

Hæstv. ráðherra sagði að skýrslan sem við vitum að er á leiðinni væri eftir forskrift og því væri ekki ástæða til að taka mark á henni eða taka hana með í þessa umræðu. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann geti verið sammála mér um það að skýrsla (Forseti hringir.) sem á að taka til tiltekinna efnisatriða sem eiga að vera í samræmi við stjórnarsáttmálann sé ekki samkvæmt einhverri tiltekinni forskrift.