143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því og hef hlustað á hv. þingmann sem hefur efasemdir um Evrópusambandið en hefur þó þá skoðun að við eigum að klára aðildarviðræður og leggja samning fyrir þjóðina. Ég ætla mér ekki að valda nokkrum einasta ágreiningi milli okkar hv. þingmanns um það. Ég ber virðingu fyrir þeirri skoðun, rétt eins og fyrir skoðun annarra þingmanna sem hafa efasemdir. Eins bið ég um að menn beri virðingu fyrir skoðunum þeirra sem ekki hafa efasemdir. En grundvallaratriðið er að fá samninginn.

Hv. þingmaður spyr mig væntanlega út í skýrslu sem Samtök atvinnulífsins eru að láta gera. Ég hef hugleitt hvort það svar sem hæstv. utanríkisráðherra gaf í fjölmiðlum um væntanlega skýrslu sem Alþjóðamálastofnun er að vinna, sem ég held að verði mikið og gott innlegg inn í þessa þörfu umræðu sem þarf að taka töluvert langan tíma, að það væri pöntuð skýrsla, sé ástæðan fyrir þeim flumbrugangi sem við urðum vitni að á föstudaginn með nýrri tillögu og öllu því sem hér hefur gerst á þessum degi og mun gerast á næstu dögum. Já, ég held að það sé þannig.