143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það hvort við hefðum átt að fara í þjóðaratkvæði í byrjun vil ég segja nei, ég tel ekki að við hefðum átt að gera það. Ég held að það hefði veikt samningsafstöðu okkar ef slíkt hefði verið gert. Ef munurinn hefði verið naumur í plús, aðeins meira en 50%, tel ég að við hefðum veikt samningsstöðu okkar.

Hvers vegna er ég þá hlynntur því núna að þjóðin sé spurð, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lofað og er nú að svíkja, hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðum? Af hverju er sá sem hér stendur, sem sagði já við því í júlí 2009, hlynntur því núna? Við því er einfalt svar. Það er einfaldlega vegna þess að mér heyrist það vera leið til sátta milli allra flokka á Alþingi að klára aðildarviðræðurnar, ganga frá samningi og leggja hann fyrir þjóðina. Það eru allir tilbúnir að fara þá leið nema sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem eru núna á handahlaupum og harðahlaupum að skrökva sig frá því sem þeir lofuðu síðasta sumar.