143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:07]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á því sem ég sagði áðan um bændur, að þeir væru að lepja dauðann úr skel. Alla vega hitti það hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur illa fyrir og mér þykir það leitt. Ef ég má, með leyfi forseta, vitna í MA-ritgerð eftir Tryggva Haraldsson. Þar segir um Dreifbýlissjóðinn, með leyfi forseta:

„Sjóðurinn styður við nýliðun og samkeppnishæfni breyttra aðstæðna í landbúnaði og hjálpar bændum sem varhluta kunna að fara sökum aukinnar samkeppni að fóta sig í leit að mögulegum tækifærum. Sjóðurinn hefur umhverfissjónarmið til hliðsjónar í ákvörðunum um styrki og gæti það skapað tækifæri á Íslandi við þær aðstæður sem þar eru. Hann veitir beina fjárstyrki til verkefna í hinum dreifðu byggðum og vinnur að því að tryggja fjölbreytileika á stöðum þar sem störfum hefur fækkað og fólk horfið á braut. Með hliðsjón af ofangreindu ættu möguleikar Íslands að teljast miklir innan þessa sjóðs.“

Ég vildi bara benda á þetta. Þetta er eitt af lykilatriðum þess að við mundum vilja fara þarna inn, þ.e. að landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn mundu ekki bíða skaða af og ég held að hvorug þessara greina gerði það.