143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst það ekki vera til að greiða fyrir þingstörfum þegar einn af hv. þingmönnum stjórnarliðsins, Karl Garðarsson, kemur hingað og talar á þann veg að ekki er hægt að draga aðra ályktun en þá að hann sé að saka embættismenn um að hafa lekið skýrslunni (Gripið fram í: Nei.) og tillögunni áður en þingmenn fengu að sjá hana. Hv. þingmaður kom og sagði að það væri alveg út í hött að ætla að þingmenn Framsóknarflokksins hefðu með einhverjum hætti eða þingmenn Sjálfstæðisflokksins komið þessu í fjölmiðla. Klárt er að þetta var birt á forsíðu fjölmiðils (Gripið fram í.)og ekki er hægt að draga aðra ályktun en þá að hv. þm. Karl Garðarsson sé að saka embættismenn um það. Þá verð ég að segja að í átta ára setu í ríkisstjórn gerðist það aldrei að embættismenn lækju upplýsingum með húð og hári á þennan hátt. Hv. þingmaður yrði maður að meiri ef hann kæmi og skýrði ummæli sín eða mundi eftir atvikum biðjast afsökunar á þeim.