143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við höfum frá upphafi gagnrýnt mjög hvernig farið var með þessa skýrslu þegar hún kom inn í þingið. Í fyrsta lagi að við skyldum þurfa að lesa um hana í fjölmiðlum áður en hún var kynnt fyrir stjórnarandstöðunni. Við höfum svo sem lent í því áður. Þegar leiðréttingin kom fram var hún kynnt á blaðamannafundi en ekkert kynnt fyrir stjórnarandstöðu og hefur raunar aldrei komið inn í þingið. Við erum svo sem orðin ýmsu vön á þessum vetri hvað það varðar að menn snuði löggjafarsamkomuna um upplýsingar um það sem er að gerast á stjórnarheimilinu.

En það keyrir um þverbak ef við lendum í því ítrekað að verið sé að kenna einhverjum öðrum aðilum en þeim sem eiga að bera ábyrgð á skýrslunni, stjórnarþingmönnum í þessu tilfelli og ríkisstjórninni, um að mál leki. Ég þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að hafa ekki nefnt Rauða krossinn í þessu tilfelli en það er í raun óþolandi að vera með svona dylgjur. Menn verða menn að meiri að lýsa því bara yfir að ábyrgðin sé hjá ríkisstjórninni og stjórnarþingmönnum. Þeir eiga þá að leita að því hver það er sem lekur skýrslunni. Ég met það við þá að hafa þó beðist afsökunar á því að hún kom of snemma fram og ég ætla að vona að hv. þingmaður biðjist líka afsökunar á ummælum sínum (Gripið fram í.) og taki þetta til baka.