143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég verð að segja að mér finnst algerlega óþolandi að sitja undir því ásamt einhverjum fleiri ótilgreindum stjórnarþingmönnum að hafa lekið skýrslu sem kom til umræðu á Alþingi fyrir nokkrum dögum.

Svo vill til að sá sem hér stendur var ríkisstarfsmaður í 17 ár áður en hann tók sæti á Alþingi og þagnarskylda er mjög ríkur þáttur í því starfi. Það var með það að leiðarljósi sem maður gekk til starfa hér. Ég kannast hins vegar við það að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur að meðan hér var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir hrun var ekki hægt að ræða mál á ríkisstjórnarfundum af því að það var alveg gefið að þau mundu leka út. Það var ekki svo í þessu tilfelli. Við fengum kynningu á þessari skýrslu seint um kvöld, kvöldið áður, á glærum. (KLM: Hvenær fékkstu skýrsluna?) Ég fékk hana í hendur kl. hálftvö daginn eftir, hv. þm. Kristján Möller.