143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Aðeins í framhaldi af þeirri umræðu sem spunnist hefur eftir ræðu mína þar sem ég gagnrýndi hvernig þessi skýrsla var lögð fram og taldi það mjög miður fyrir starfshætti Alþingis og umræðuna hér sem á að vera fagleg og góð þó að við tökumst harkalega á. Ég gagnrýndi það t.d. að Morgunblaðið fékk skýrsluna greinilega snemma. Nú þekki ég ekki hvenær Morgunblaðið er sett og kæri mig heldur ekkert um að þekkja það. En um morguninn var alla vega búið prenta blað þar sem talað var um skýrsluna og það sem mér fannst allra verst var að vakna við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) vera að ræða þá skýrslu í útvarpi snemma morguns. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Ég hef verið með böggum hildar í dag yfir því að það er hungursneyð í Evrópu [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.) og ég hef verið að hugleiða í dag (Forseti hringir.) hvort ég eigi að flytja hér þingsályktunartillögu um að lýðveldið Ísland veiti matvælaaðstoð (Forseti hringir.) til Evrópu í framhaldi af því. Ég kalla eftir því ef einhverjir fleiri vilja vera meðflutningsmenn að þeirri tillögu. (Gripið fram í: … gefa þeim malta?)