143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að þakka hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins og ber mikla virðingu fyrir þeirri hreinskilni sem þar kemur fram enda hefur sá þingmaður aldrei gert annað hér á þingi en vera heiðarleg og sagt hlutina eins og þeir eru. Ég þakka henni fyrir að upplýsa þingheim um að skýrslan hafi verið send í rafrænu formi — heyrði ég það rétt; milli 10 og 11 um kvöldið? Ekki um morguninn? Þá er það komið hér fram. Ég fékk ekki þá tillögu þá. Stjórnarliðar fengu tillöguna senda rafrænt. (Utanrrh.: Þetta er stjórnartillaga.) Ég veit ekkert hver það hefur gert en það er auðvelt að „forvarda“ þeirri sendingu og það er það sem gert hefur verið. Það hefur þá skýrst hér að það voru stjórnarþingmenn einir sem fengu þessa skýrslu rafrænt.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði líka í lokin að geta um hversu margir hefðu skrifað sig núna á áskorendalistann Já Ísland, (Forseti hringir.) en því miður er það þannig að það er greinilega svo mikið (Forseti hringir.) að gera á vefnum að hann liggur niðri, maður kemst ekki inn á hann. Ég ætla að nota þetta (Forseti hringir.) tækifæri til að hvetja sem flesta Íslendinga (Forseti hringir.) til að skrifa á þennan lista.