143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Varðandi lekann á þessari skýrslu; þegar menn velta því fyrir sér af hverju þetta hafi gerst þegar samið hafi verið um hvernig fara ætti með skýrsluna, hvenær ætti að dreifa henni og að allir ættu að hafa jafna aðstöðu, þá hljótum við að spyrja: Hverjir höfðu mestan hag af því að verða fyrstir til að túlka niðurstöðu skýrslunnar sem átti að vera grunnur að ákvarðanatöku stjórnvalda varðandi aðildarviðræður? Hverjir höfðu mestan hag af því? Voru það prentarar, bílstjórar, embættismenn? Nei, auðvitað ekki. Við hljótum að horfa til þeirra sem höfðu mestan hag af því. Þeir munu ekki gefa sig fram en við skulum ekki vera að beina spjótum okkar að fólki sem hafði engan hag af því að leka skýrslunni eða verða fyrst til að túlka hana.