143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er einmitt vegna orða hv. þm. Elínar Hirst sem ég er komin hér upp í fundarstjórn forseta öðru sinni. Stærstan hluta af minni starfsævi hef ég unnið með ungmennum í skólum og hef tekið á eineltismálum og þekki þau afar vel. Það sem á sér stað í þessum þingsal er ekki einelti. Við erum hins vegar að takast á. Við erum að takast á um hugmyndir og takast á um stórmál.

Núna í kvöld vorum við að tala um lekann á skýrslunni. Túlkun á skýrslunni kom fram í Morgunblaðinu, hún kom fram á Eyjunni og frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í morgunútvarpinu. Við erum að ræða það. Eru það eineltistilburðir? Ég leyfi mér að segja, hæstv. forseti að þeir sem gjaldfella svo þetta hugtak þekkja ekki til raunverulegra eineltismála.