143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og tek undir með hv. þingmanni. Mér finnst það skjóta skökku við að á sama tíma og við tölum um að efla þurfi atvinnulífið, fjölga störfum og auka framleiðni þá ætlum við að loka á kost sem atvinnulífið hefur kallað eftir. Við heyrum fréttir af því að fyrirtæki eru sum hver að fara úr landi og sprotar eiga erfitt uppdráttar hér. Við vitum líka að vaxtastig á Íslandi er mjög hátt og vaxtastig evru er lægra þó að það yrði kannski alltaf hærra hér á Íslandi en í nágrannalöndunum.

Ekki má gleyma því að við þurfum líka, þegar við förum að ræða þingsályktunartillöguna í þessari viku, að ræða hagsmuni neytenda; lækka vexti, lækka matvælaverð eitthvað, auka úrval ef við förum inn í þetta tollasamband af fullum krafti. Það er mjög mikilvægt, bæði fyrir atvinnulífið og fyrir almenning.

Við höfum kallað eftir því að ríkisstjórnin móti gjaldmiðilsstefnu og mér finnst það alveg út í hött að þingflokkur með sex þingmenn sé að kalla eftir því að stjórnvöld móti sér gjaldeyrisstefnu, þetta er bara súrrealískt. Öll stjórnvöld eiga að hafa slíka stefnu. Þau eiga ekki bara að vera að hugsa hér og nú, að við verðum að hafa krónuna næstu árin, þau eiga að hugsa til framtíðar. Hvað ætlum við að gera eftir 10 ár eða 20 ár? Sjáum við fyrir okkur að við ætlum að vera með krónuna? Það er mikil áskorun, gríðarleg áskorun.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ESB er í mínum huga engin töfralausn. Það er ekki allt jákvætt við ESB en þetta er kostur sem við verðum að skoða. Við megum ekki loka þeim dyrum, það væri mjög alvarlegt.