143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og minni á að í nýlegri skýrslu, sem allir flokkar hafa tekið þátt í samstarfi um að byggja á, McKinsey-skýrslunni, er talað um þá veikleika að alþjóðageirinn á Íslandi sé of veikur. Það blasir við að framhaldsmenntun er minni hér en í nokkru öðru Norður-Evrópuríki og þegar fyrirtækin sem eru að búa til menntuðu störfin og þekkingarstörfin segjast ekki geta starfað með íslenskri krónu þá verður að hlusta á þau. Annars blasir sú mynd við að við séum að byggja hér atvinnulíf sem felist í því að fólk með verkmenntun, tækniþekkingu, flytur úr landi og við flytjum í staðinn inn nýtt fólk til að vinna láglaunastörf. Er það lausn sem fólki finnst ákjósanleg að við efnum til stórfelldra þjóðflutninga í staðinn fyrir að reyna að byggja hagsæld fyrir íslenska þjóð og sóknarfæri?