143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þetta ástand sem er núna eða það að nota krónuna þjónar hagsmunum einhverra. Það er alveg ljóst. Það eru einhverjir sem græða á því að hafa krónuna en það er ekki almenningur. Ef við erum að tala um að loka dyrum óttast ég að ef við slítum þessum viðræðum, sem er algert einsdæmi og við vitum ekki hvernig Evrópusambandið tekur því, ég er ekkert hissa þótt þeir séu orðnir svolítið pirraðir á okkur, getum við hugsanlega verið að loka öðrum dyrum sem eru EES-samningurinn. Þess vegna kalla ég eftir því og mundi vilja að það færi fram eitthvert mat á því hvaða áhrif það hefur á EES-samninginn. Við erum nú þegar með undanþágu vegna þess að við erum með gjaldeyrishöft. Getum við treyst því að vera alltaf með þá undanþágu? Við erum hugsanlega ekki aðeins að loka einum dyrum heldur tvennum.

Varðandi neytendamálin er það kannski fyrst og fremst afnám tolla sem skiptir máli og stöðugra efnahagsumhverfi, þ.e. lægra vaxtastig og afnám verðtryggingar. Ætli það sé ekki eitt stærsta hagsmunamál heimilanna? Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við afnemum ekki verðtrygginguna fyrr en við skiptum krónunni út. Ég er enginn sérstakur talsmaður verðtryggingarinnar en ég held að hún sé fylgifiskur krónunnar, því miður, þannig að ef við ætlum að losna við verðtrygginguna verðum við að finna nýjan gjaldmiðil. Þá tvær leiðir sem koma til greina; upptaka evru með stuðningi Evrópska seðlabankans og aðstoð hans eða einhliða upptaka annars gjaldmiðils, sem Seðlabankinn var ekkert allt of hrifinn af í skýrslu sinni. Það eru ýmis vandamál sem tengjast því að taka einhliða upp annan gjaldmiðil eða þá að hafa krónuna áfram, sem mér sýnist vera stefna stjórnvalda.