143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög brýnt sé að við köllum eftir því að stjórnvöld upplýsi okkur um hvaða áhrif þessi þingsályktunartillaga, verði hún samþykkt, hefur á EES-samninginn. Af því að hæstv. utanríkisráðherra situr í salnum heyrir hann kannski þessa umræðu hér og er þá undirbúinn. Þetta er eitthvað sem í það minnsta ég mun spyrja um, þ.e. hvaða sviðsmyndir menn hafa teiknað upp ef svo færi að ESB tæki þetta óstinnt upp og færi að hugsa sinn gang varðandi EES-samninginn.

Það er talað um að við getum haft krónuna svo framarlega sem hagstjórnin er öguð. Ég velti fyrir mér hvort hægt sé að vera með agaða hagstjórn ef krónan er gjaldmiðill. Það er mjög erfitt. Það er örugglega auðveldara að hafa stjórn á fjármálunum með stöðugri mynt, þótt það sé vissulega áskorun líka.