143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns og vonandi höfum við dregið einhverja lærdóma af efnahagshruninu, rannsóknarskýrslunni o.s.frv. og ákallinu um breytt vinnubrögð í stjórnmálum. Það er það sem er í raun áskorun fyrir okkur öll sem setjumst inn á þing eftir kosningar 2009 en ekki síður núna eftir kosningarnar 2013. Þess vegna hefur maður áhyggjur af því þegar tillagan er sett svona fram af því að það er tiltölulega gamaldags leið að koma bara bratt inn og vera með sterkan meiri hluta og ætla að dúndra málinu í gegn.

Ég held að það sé ágætt að við horfum til þess hvernig umhverfis- og samgöngunefnd hefur unnið með tillögu um afturköllun náttúruverndarlaga. Þar hefur þingið sýnt ákveðið sjálfstæði og styrk í því að taka málið sem var sett bratt inn, dálítið svipaður stíll að mörgu leyti, og sýndi að með sjálfstæði og sjálfstrausti gat þingnefndin leitt málið til lykta með miklu farsælli hætti bæði fyrir málið sem slíkt en ekki síður fyrir þingið. (Forseti hringir.) Ég vil því snúa máli mínu frekar til þingsins heldur en til hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) vegna þess að hann hefur væntanlega sleppt hendinni af málinu.