143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Kristjáns Möllers. Ég hef rætt við hv. þm. Bryndísi Pétursdóttur í dag og hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með þessi vinnubrögð. Hún kemur úr flokki sem er að reyna að stunda öðruvísi vinnubrögð og mér finnst það mikil vanvirðing við þann undirbúning sem hún hefur lagt á sig til að koma hér í málefnalegar umræður að setja hana í ræðustól kl. 11 að kvöldi og að hæstv. utanríkisráðherra virði ekki þær áleitnu spurningar sem hún bar fram í ræðu sinni. Hvers konar vinnustaður er þetta eiginlega? Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að taka virkari þátt í umræðunum sem við höfum hér. Við erum ekki hér til neins annars en ræða skýrslu sem því miður hefur verið sett í uppnám út af málinu sem er næst á dagskrá.