143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er viss um að ég gerðist sekur um það mörgum sinnum á síðasta kjörtímabili að halda því fram að það greiddi ekki fyrir þingstörfum að þáverandi hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson tæki til máls. Í þessu tilviki er þó málum öðruvísi háttað. Hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram skýrslu. Hann hefur mælt skörulega fyrir henni en síðan má heita að munnur hans hafi verið saumaður saman.

Ég hef setið hér undir umræðunni svipað og hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur reyndar sýnt lofsvert úthald við það, en ég minnist þess ekki að hann hafi tekið til máls nema kannski tvisvar eða þrisvar í andsvörum og þá aðallega til að bera af sér sakir varðandi Úkraínu og ýmislegt annað sem honum hraut af vörum. Ég held að það mundi greiða mjög fyrir umræðunni og verða til þess að við fengjum einhvern botn í þetta mál ef hæstv. ráðherra upplýsti um það hvort yfir höfuð hefðu verið gerðar einhverjar úttektir á því hvað það þýðir að slíta viðræðunum.