143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn í þessa umræðu um fundarstjórn forseta út frá því hvað klukkan er orðin, tæplega hálftólf á mánudagskvöldi. Við erum stödd í umræðu um skýrslu sem utanríkisráðherra lagði fram í síðustu viku, erum hér á kvöldfundi eftir atkvæðagreiðslu í dag þar sem stjórnarmeirihlutann ákvað eiginlega fyrir minni hlutann að við mundum ræða þetta fram á kvöld í einhverjum flýti. Ég og minn flokkur höfum reynt að vanda eins og við mögulega getum vinnu okkar í þinginu og höfum talað um að við viljum ekki eyða tíma í málþóf eða ræða málin að óþörfu en hér er um slíkt risamál að ræða að það er ekki annað hægt en að ræða málið í þaula (Forseti hringir.) og vandlega. Því vil ég frábiðja mér skilaboð eins og við fengum frá utanríkisráðherra í gegnum fjölmiðla í dag (Forseti hringir.) að öll umræða um skýrsluna héðan af verði væntanlega málþóf.