143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af því að hæstv. ráðherra er í salnum vil ég segja að ég kallaði eftir svörum í dag varðandi málsmeðferð sem hér var lögð til úr forsetastóli og innti ráðherra eftir því hvort hann tæki undir þá skoðun forseta. Hann sá ekki ástæðu til að svara mér þeirri spurningu en fram kom að eins og forseti skildi málið færi skýrslan til nefndar, þaðan kæmi nefndarálit og síðan kæmi hún hingað til framhaldsumræðu. Eins og ég skildi það mundi þá ekki annað vera tekið til umfjöllunar á meðan. Hvernig sér hæstv. ráðherra farveg málsins í framhaldinu af því sem nú á sér stað og í ljósi þess að komin er á dagskrá á morgun þingsályktunartillaga hans, sem hann mótmælt reyndar í dag að yrði tekin af dagskrá? Sér hann þá ekki fyrir sér að þetta verði gert á þennan hátt eða hvernig sér hann fyrir sér að þetta mál hafi einhverja þýðingu?