143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta skjót viðbrögð við bréfi mínu frá í morgun en lýsi jafnframt vonbrigðum með niðurstöðu hans.

Eins og ráða má af orðum hæstv. forseta er það þannig að ef þingsályktunartillaga er formlega í lagi að ytri gerð er hún þingtæk. Í þessari tillögu er annars vegar vegið að æru þingmanna sem greiddu atkvæði með aðildarumsókn sumarið 2009 og þeir eru margir ekki hér til að svara ásökunum og áburði stjórnarflokka í því efni.

Að hinu leytinu felst í tillögunni ómöguleiki. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í Kastljósviðtali í gærkvöldi að hornsteinn tillögunnar væri sá að verið væri að binda framtíðarþing um tiltekna afgreiðslu þessa máls.

Tveir prófessorar í stjórnskipunarrétti segja í Fréttablaðinu í morgun að það sé ekki hægt. Annar þeirra notar þau orð að þetta sé innantómt loforð. Þjóðin er auðvitað búin að fá nóg af innantómum loforðum þessara tveggja flokka í Evrópumálum á undanförnum missirum og óþarfi að bæta þar á. En það liggur sem sagt fyrir að ekki er hægt að efna þingsályktunartillöguna að efni hennar. Það er ómögulegt. Þar er sannanlega fyrir hendi ómöguleiki í málinu, hann er staðfestur af tveimur prófessorum í stjórnskipunarrétti í Fréttablaðinu í morgun og mér finnst ekki rétt að forseti þingsins taki ekki tillit til efnislegra ágalla tillögu þegar svo ber undir.

Svo finnst mér sérstaklega dapurlegt að það sé hægt fyrir heiftúðugan stjórnarmeirihluta að leggja fram þingsályktunartillögu með ærumeiðingum í garð tiltekinna þingmanna úr eigin flokkum sem greiddu atkvæði með tilteknum hætti á fyrri þingum. Það finnst mér óskaplega dapurlegt fyrir stöðu Alþingis og mér finnst að forseti þingsins eigi að verja þingmenn gegn svona ósvinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)