143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra verði tekin af dagskrá þingfundar í dag. Hæstv. forseti tók þá góðu ákvörðun í gær að taka þingsályktunartillöguna af dagskrá en setti hana aftur á dagskrá þingfundar í dag.

Það eru tvær mjög gildar og góðar ástæður fyrir því að hæstv. forseti ætti að taka málið af dagskrá. Í fyrsta lagi er enn verið að ræða skýrsluna sem er grundvöllur ákvörðunartöku hæstv. utanríkisráðherra og hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans um það hvernig þeir ætla að snúa sér í þessu flókna og stóra og mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Í öðru lagi komu hér fram rökin í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, þegar hann fór vel yfir álitamálin í þingsályktunartillögunni sjálfri og einnig í greinargerðinni.