143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við stöndum frammi fyrir áleitnum spurningum um virðingu þingsins. Annars vegar varðandi dagskrárvaldið, þ.e. þá niðurstöðu forseta að setja mál á dagskrá sem er þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra áður en þingið hefur lokið umfjöllun um skýrslu þess hins sama sem varðar efnisþætti málsins. Ég kalla eftir því að hæstv. forseti hjálpi okkur sem hér erum til að halda virðingu þingsins á lofti gagnvart framkvæmdarvaldinu og við fáum að setja málin á dagskrá þegar eðlilegt er.

Svo vil ég líka nefna þá alvarlegu stöðu sem kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni þar tilteknum einstaklingum er brigslað um brot á stjórnarskrá. Við erum að tala um mjög alvarlega aðför að þingmönnum. Forseti talar um að þetta sé á ábyrgð flutningsmanna málsins en flutningsmennirnir eru ekki hverjir sem er. Það er ríkisstjórn Íslands með fulltingi þingflokka beggja stjórnarflokkanna. Það er býsna kröftuglega kvittað undir þessa aðför og mér finnst að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þingið hvernig tekið er á því.