143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil undir þessum lið, þar sem oft er fjallað um þá umræðu sem í gangi er, gera að umtalsefni ummæli hæstv. utanríkisráðherra í gærkvöldi sem kom í þingsal og hélt því fram að hér væru menn að stunda tilbrigði við málþóf.

Ég hef sjálfur ekki flutt neina ræðu, þó að ég sé vissulega á mælendaskrá, í umræðunni um skýrslu utanríkisráðherra og hluti míns þingflokks hefur ekki enn þá komið í ræðustól til að fjalla um hana. Hæstv. utanríkisráðherra hélt hinu sama fram í samtali við fjölmiðla í gærkvöldi, hann hefði áhyggjur af því að Samfylkingin og Björt framtíð mundu reyna að spilla fyrir málinu með málþófi. Ég velti fyrir mér hvers vegna sá maður sem er æðsti yfirmaður diplómasíunnar á Íslandi ákveður að sýna mönnum þessa ókurteisi bæði í tali í fjölmiðlum og þingsal.

Það er sérlega ómaklegt að halda því fram fyrir fram, þegar menn eru ekki einu sinni búnir að ræða málið einu sinni, að þeir séu komnir í málþóf. Ég mótmæli þessu og vil vekja athygli þingheims á þessu.