143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessi tillaga verði tekin af dagskrá og hún rædd við flutningsmenn hennar, þ.e. í fyrsta lagi tillögugreinin sjálf miðað við það sem forseti hefur staðfest hér sem sinn skilning sem er sá sami og skilningur prófessora í Fréttablaðinu í dag, að hún sé efnislega röng. Þar með lít ég svo á að hún sé ekki þingtæk.

Í öðru lagi hljótum við að gera þá kröfu að hæstv. forseti verji þá þingmenn sem hafa setið hér á þingi og verða fyrir mjög alvarlegri aðför í greinargerð með tillögunni. Þar er því haldið fram að þingmenn hafi ekki greitt atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu í máli varðandi Evrópusambandið. Þá má rifja hér upp að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði á þrjá vegu, Framsóknarflokkurinn á tvo vegu, Vinstri hreyfingin – grænt framboð á tvo vegu þannig að svo sannarlega er augljóst að þarna voru engar flokkslínur, heldur einmitt sannfæring þingmanna.

Ég geri þá kröfu að hæstv. forseti (Forseti hringir.) verji heiður þeirra þingmanna sem eru sakaðir um stjórnarskrárbrot í greinargerð með tillögu frá ríkisstjórninni.