143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það tjáir kannski ekki að deila mikið um þann úrskurð forseta að tillagan sé að formi til þingtæk. Vissulega heitir hún tillaga til þingsályktunar og er prentuð á hvítan pappír og allt það en mitt mat er engu að síður að hún sé að minnsta kosti illa þingtæk og að Alþingi setji niður við að taka hana á dagskrá.

Það er lítið skjól í því að um þingsályktunartillögu sé að ræða en ekki lagafrumvarp. Þetta er stjórnartillaga og hún er annars vegar stjórnskipulegur eða þingræðislegur bastarður, klúður, það blasir við öllum og forseti hefur í raun fyrir sitt leyti lýst sig sammála því. Það er verið að reyna að láta líta út fyrir að tillagan sé eitthvað annað og þýði eitthvað annað en hún getur eðli málsins samkvæmt gert. (VigH: Nú væri gott að hafa lagaskrifstofu …) Það er fáránlegt.

Að hinu leytinu er tillagan og greinargerð hennar vitnisburður, í sjálfu sér verðmætur vitnisburður um það hversu lágt litlir karlar geta lagst í því að reyna að ata auri andstæðinga sína í stjórnmálum. (Forseti hringir.) Það er höfundi greinargerðarinnar til skammar en líka, virðulegur forseti, þeim sem veita því (Forseti hringir.) atbeina og stuðning að svona tillaga komi fram. (Forseti hringir.) Þessi ummæli eru að engu hafandi, þau eru dauð og ómerk og til skammar þeim sem tengja sig við þau.