143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi úrskurður hæstv. forseta vekur undrun mína og ég ætla að gagnrýna hann vegna þess að í tillögunni er skýring sem mér dauðbrá við að sjá aftur í pappírum. Ég ætla að fá að lesa þessa skýringu í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu …“

Hér er verið að segja að einhverjir þingmenn hafi greitt atkvæði gegn sannfæringu sinni sem er brot á stjórnarskrá. Þetta hefur áður komið fram og hvernig er hægt að láta það óáreitt, láta eins og ekkert hafi í skorist? Þetta eru gríðarlega alvarlegar ásakanir. Ef forseti hefur einhver dæmi um að hér hafi verið beitt þvingunum, ofbeldi eða kúgun sem réttlætir það að þingmaður greiðir atkvæði gegn sannfæringu sinni verður hann að upplýsa um það.

Menn geta ekki falið sig á bak við einhverjar skýringar utan þingsalar. Við erum að fara að greiða atkvæði og ég vil vita (Forseti hringir.) að hér sé frjálst fólk sem greiðir atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni.