143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér var svo mikið niðri fyrir áðan að ég gleymdi alveg að segja það sem ég kom í stólinn til að segja. Það er út af brigslum hæstv. utanríkisráðherra um það sem hann kallaði í gær tilbrigði við málþóf. Hann hlýtur að þekkja það því að færri voru betri eða reyndust betur í málþófi á síðasta þingi en hann. Ég vil taka það fram að ég tel mig ekki hafa verið í málþófi þegar ég flutti ræðu mína í gærkvöldi og ég tel heldur ekki að ég verði í málþófi þegar ég flyt seinni ræðu mína í dag.

Ég kem í þessum ræðum mínum inn á tvö atriði sem við vorum sammála um, við hæstv. fjármálaráðherra, um daginn að skiptu miklu máli. Annars vegar hvort hægt sé að ná sértækum samningum og hins vegar skýrslu um hagsmunamat. Ég á eftir að tala um skýrsluna um hagsmunamatið þannig að ég tel að það verði ekki málþóf þegar ég kem upp í seinni ræðu mína í dag.