143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Á fundi forsætisnefndar í gær lagði ég til að hæstv. forseti hefði samband við hæstv. utanríkisráðherra og byði honum upp á að lagfæra tillögu sína eða að minnsta kosti greinargerðina þannig að síðan mætti prenta skjalið upp með sómasamlegri greinargerð eða að minnsta kosti greinargerð sem ekki væri til stórfelldrar skammar fyrir ráðherra og til vansa fyrir Alþingi að hafa á borðum sínum.

Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi átt samtal við hæstv. utanríkisráðherra, bent honum á þennan möguleika. Betra er seint en aldrei og menn eru bara menn að meiri að sjá að sér ef við tækjum þann jákvæða pól í hæðina að líta svo á að hæstv. utanríkisráðherra hefði orðið hér á óskaplega klaufaleg mistök og öllum stjórnarþingmönnum sem studdu að tillagan kæmi fram, í einhverju hugsunarleysi eða af vangá sést yfir það að tillagan er ekki boðleg eins og hún er, í raun hvorki tillögugreinin og þaðan af síður greinargerðin.

Ég tek að sjálfsögðu undir óskir um að forsætisnefnd hittist og fjalli um (Forseti hringir.) erindi hv. þm. Árna Páls Árnasonar en ég vil líka inna forseta eftir því hvort hann hafi átt slíkt samtal við hæstv. utanríkisráðherra.