143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[14:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málið er ekki svona léttvægt. Það er í greinargerð með ríkisstjórnartillögu verið að segja að einhverjir þeirra 63 þingmanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni 2009 um tillöguna um aðild að Evrópusambandinu hafi brotið stjórnarskrá og ekki greitt atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu.

Samt er það staðreynd að sjaldan hafa þingflokkar brotnað upp í jafn marga hópa og í þeirri atkvæðagreiðslu. Ég er ein af þessum 63 þannig að ég er ein af þeim sem hér er mögulega verið að tala til. Ég fer fram á það að ekki aðeins verði varðir þeir þingmenn sem ekki sitja lengur á þingi og þurfa þar með að sitja undir þessum áburði heldur líka við hin. Ef hæstv. forseti er ekki tilbúinn að taka þessa tillögu af dagskrá til að fara betur yfir þetta mun ég formlega, með bréfi til hæstv. forseta og forsætisnefndar, (Forseti hringir.) óska eftir því að upplýst verði hvaða gögn liggja að baki þeim fullyrðingum sem koma fram í þessari greinargerð. Áður en það er upplýst liggjum við öll sem tókum þátt í þessari atkvæðagreiðslu undir því ámæli að hafa brotið stjórnarskrá.