143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[14:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þingtæki þessarar þingsályktunartillögu er umdeilt að því er virðist. Þá þykir mér mjög áhugavert að virðulegur forseti hefur sagt að þingsályktunartillaga geti ekki bundið hendur næsta þings og velti fyrir mér hvers vegna standi þá í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.“

Þarf ríkisstjórnin sérstaka heimild til að halda ekki þjóðaratkvæðagreiðslu? Sumum finnst kannski að það ætti að vera þannig en það er ekki þannig, svo mikið er ljóst.

Ég velti því fyrir mér hvaða vitleysa það sé að hafa þennan texta í þingsályktunartillögunni ef þetta á að vera gjörsamlega þýðingarlaust hvort sem er.

Auðvitað er þetta gert einfaldlega til þess að reyna að láta ályktunina hljóma um það bil eins og það sem stjórnarflokkarnir sögðu fyrir kosningar, þó ekki þannig að fram komi að það verði í raun og veru þjóðaratkvæðagreiðsla því að þá gætu stjórnarflokkarnir þurft að samþykkja að taka á dagskrá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir um að (Forseti hringir.) spyrja þjóðina.