143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[14:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum nefnilega ekki að tala hér um neitt grín. Við erum að velta fyrir okkur, ekki bara greinargerðinni með þessari tilteknu þingsályktunartillögu heldur hvort forseti telji það sæma yfir höfuð að svona brigsl séu prentuð hér sem þingskjal. Er það eitthvað sem við getum búist við að þyki eðlilegt í framhaldi af þessu, að við séum bara komin inn í eitthvert nýtt tímaskeið þar sem það er við hæfi að menn segi, með leyfi forseta, „atkvæðagreiðslan tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna“? Er það orðið þannig að það sé eitthvað sem hægt er að segja um ókomna tíð?

Ég spyr líka virðulegan forseta: Er virðulegur forseti sjálfur, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sammála því efnislega sem segir í greinargerðinni að atkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) í þingsal geti verið, eins og hér segir, tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna? (Forseti hringir.) Áttar virðulegur forseti sig ekki á því inn í hvaða tímaskeið við erum að fara ef þetta þykir tækt til að setja á dagskrá?