143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga og vikur hafa nokkrir aðilar komið að máli við mig. Allir þessir einstaklingar hafa átt eitt sameiginlegt, þeir voru með gengistryggð lán, annaðhvort á heimilum sínum eða fyrirtækjum, og allir hafa þeir misst eignir sínar á undanförnum árum.

Ég ætla að ræða hér nokkur atriði sem mér finnst nauðsynlegt að bregðast við, sérstaklega vegna þess að bak við þessi mál eru einstaklingar og fjölskyldur sem eiga erfitt vegna baráttu sinnar við fjármálastofnanir, baráttu sem engu hefur skilað, og málin fyrnast brátt.

Samt sem áður eru til gögn um að fjármálafyrirtækin hafa viðurkennt í samskiptum við lögmenn að lánin séu sambærileg þeim lánum sem dæmd hafa verið ólögmæt. Að mínu mati verður að bregðast við og auðvelda þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem farið hafa í þrot vegna ólögmætra lána að sækja rétt sinn áður en málin fyrnast.

Að mínu mati verður að bregðast við og krefjast svara við því hvers vegna einstaka fjármálastofnanir neita að fara í endurútreikninga á ólögmætum lánum nema að einstaklingar og fyrirtæki sæki mál sitt á móti viðkomandi stofnun. Gerum okkur grein fyrir að það er aðeins brot af þeim sem eru í þessum sporum sem hafa burði til að sækja mál sín, meðal annars vegna líðanar sinnar og fjárhagslegrar stöðu.

Að mínu mati verður að bregðast við og krefjast svara um hvers vegna einstaklingar og fyrirtæki hafa verið sett í þrot eftir að dómar hafa fallið, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti, dómar um ólögmæti sams konar lána og settu viðkomandi í þrot.

Herra forseti. Mín skoðun er sú að hjálpa verður þeim sem leita þurfa réttar síns gagnvart fjármálastofnunum og fara fram á endurútreikninga, m.a. með því að veita gjafsókn vegna þessara mála. Er ekki möguleiki að veita fordæmisgefandi málum brautargengi varðandi gjafsókn þannig að réttlætið nái fram að ganga svo að hægt sé að leita réttar síns? Það eru margir sem komast ekki í gegnum gjafsóknarferli í dag þar sem skilyrðin eru mjög þröng.

Að mínu mati þarf að klára þessi mál, (Forseti hringir.) það er mikilvægt að gera upp það sem hér gerðist og í framhaldi af því þarf að tryggja betur hag neytenda gagnvart fjármálastofnunum.