143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ómöguleikinn leynist víða. Í gær innti ég hæstv. forsætisráðherra eftir stöðu samráðs um afnám hafta. Hæstv. forsætisráðherra gaf þá til kynna í síðara svari sínu að það eina sem hindraði samráðið væri að fulltrúar stjórnarandstöðunnar mættu ekki á fundi þegar þeir væru boðaðir. Haldnir hafa verið heilir þrír fundir í þessum þverpólitíska samráðshóp. Gott og vel, þar situr fólk, það hefur fengið skipunarbréf, það á að fara yfir málin og hlutverkið er, eins og það heitir í skipunarbréfi, að vera vettvangur fyrir miðlun upplýsinga og samráð um málefni tengd fjármagnshöftum og afnámi þeirra.

Þess vegna hlýtur það að vekja manni spurningar þegar hæstv. forsætisráðherra kemur ítrekað upp og svarar fyrirspurnum frá mörgum hv. þingmönnum og segir að áætlun um afnám gjaldeyrishafta eigi að vera leynileg. Hæstv. fjármálaráðherra segir svo á fundi í Valhöll í hádeginu: Við erum á fullu að vinna samkvæmt áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Og við erum mjög bjartsýn á að þetta sé allt í mjög góðum gangi.

En hefur þverpólitíski samráðshópurinn sem á að vera vettvangur fyrir hið mikla þverpólitíska samráð heyrt um áætlunina? Nei, hann hefur ekki fengið eina einustu kynningu á áætlun um afnám hafta sem greinilega er svo leynileg að hún fær ekki að líta dagsins ljós í trúnaðarsamráði stjórnmálaflokkanna.

Þegar hæstv. forsætisráðherra talar hér um holan hljóm í þingstörfum segi ég: Það er mjög holur hljómur í öllu samráðstali af hálfu hæstv. forsætisráðherra þegar greinilega er verið að draga hér upp villuljós um meint samráð í þessu stóra verkefni sem við viðurkennum öll að sé eitt stærsta verkefni í íslensku efnahagslífi, þ.e. afnám hafta, þegar menn tala eins og hér sé verið að fara fram með allar upplýsingar í þverpólitísku samráði og svo kemur eitthvað allt annað frá hæstv. fjármálaráðherra. Ég hlýt að segja það, af því að þessi liður fjallar um störf þingsins, að ég trúi því ekki að hæstv. forseti sé sáttur við að hv. þingmönnum (Forseti hringir.) sé svarað hérna út og suður. Mér finnst ástæða til að taka það upp, virðulegi forseti.